Ferðalagið heim til Íslands gekk ágætlega, þökk sé Önnu Heiðu. Það var nefnilega nauðsynlegt að hafa hana þegar ákveðið var að sprengjuleita hárblásarann minn og við beðnar um að vippa 30 kílóa töskunni upp á borð, eitthvað sem mínir kraftar ráða ekki við! Mér til mikillar gleði flaug hún með mér þar sem hún þurfti að skreppa heim. Það er annars mikið ljúft að vera komin heim til lands íss og elda, 30 milljón króna blokkaríbúða, stýrivaxtaákvarðana og 2.000 kr. kjúklingabringa.
Bloggið endar hér, my so called life “í útlöndum” byrjaði í Danmörku, hélt áfram í Frakklandi og endar á Íslandi. Þakkir til ykkar sem fylgdust með og tókuð þátt. Mamma var vön að segja að bloggið væri í besta falli ein tegund sjálfsdýrkunar. Það er því við hæfi að vera svolítið sjálfhverf og benda ykkur á Johari gluggann þar sem þið getið lýst mér í 6 lýsingarorðum. Ég þarf líka smá pepp-up í nýju vinnunni ;-) Farið vel með ykkur.
PS. Það koma myndir fljótlega frá síðustu dögunum í Strass. |