|
|
Góðan eftirmiðdag kæru lesendur og velkomin aftur í veröld Karenínu-bloggs. Eftir jól, afmæli, áramót og jómfrúar-lokaprófið er kominn tími til að tjá sig á veraldarvefinn. Jólafríið á Íslandi heppnaðist vel og það var yndislegt að hitta alla á ný. Þetta var kannski ekki beint frí fyrir okkur útlendingana þar sem maður var á þönum að kyssa á kinnar allra sem urðu á vegi okkar. En það voru verðmætir kossar! Ég eignaðist eitt ár í viðbót þegar ég varð 23 ára þann 28.12 , alltaf svo gaman að eiga afmæli sérstaklega þegar maður er ekta jólastelpa hí hí :c) Ég vil þakka öllum heima fyrir frábærar samverustundir, gjafir og kort. Þið gáfuð okkur skötuhjúunum góðan skammt af orku fyrir prófmánuðinn mikla.
Hvað er það að hafa próf í janúar?? Þetta er nú mesta bull sem ég hef séð og skrifað. Janúar á að vera mánuður sem má réttilega fara í að aumka sér yfir því að jól og afmæli séu búin og visakortið brunnið en jafnframt mánuður rólyndis, letikasta og jólabókalesturs upp í rúmi. Danska menntakerfið snýr þessu öllu á hvolf! Skyndilega á þetta að vera mánuður afreka og árangurs þegar þetta óskiljanlega námsefni á loksins að síast inn í höfuðið. En það þýðir víst lítið að kvarta yfir þessu við ykkur kæru blogglesendur. Í staðinn tökum við á þessu með bros á vör og hugsum um betri tíð með rósir og sólblóm í haga. Ráðist var á jómfrúar-prófið við Háskólann í Árósum í morgun og held ég að það hafi gengið sæmilega. Hefði mátt ganga betur sökum tímahraks og fleira en það er bara "partur af programmet". Nú eru 2 vikur í næsta próf þannig að það verður slappað af í smástund (horft á Idol-upptökur) áður en lestur er hafinn á ný.
Stefnumót mitt við hringabera, kónga og álfa var held ég eitt af bestu stefnumótum fyrr og síðar! Já Lord of the Rings stóðst allar mínar væntingar og meira til. Veit einhver hvenær þetta meistaraverk kemur út á extended dvd? Er strax farin að hlakka til :-) Á þessu ári gæti meira en vel verið að ég byrji að lesa þríleikinn en fyrst bíður Harry Potter og Fönixreglan upp í hillu eftir því að 30.jan rennur upp, þegar prófmánuðurinn mikli endar. Þá verður sko gaman! |
|
| |