|
Hej hej! Vikan næstum á enda komin og því enn og aftur komin helgi. Þessi helgi mun einkennast af mjög andstæðum viðburðum sem eru ekki stuðningsviðburðir því annar þeirra mun reyna að koma í veg fyrir hinn. Um helgina er nefnilega Tour des Chambres þar sem íbúðin okkar mun í einn hálftíma vera full af kátum og ölvuðum Dönum sem munu eflaust rífast um síðasta dropann af íslenska brennivíninu. Hinir hálftímarnir fara í að flakka um allar hinar íbúðirnar á kolleginu þar sem manni verður boðið upp á misjafna gleðidrykki :-) Enn og aftur hlakka ég til að tala bjór-dönskuna mína en vona að hún dugi aðeins lengur heldur en síðast. Hinn viðburðurinn felst í því að slá öll met hvað varðar lærdóm um helgar þar sem pabbi og Marteinn koma hingað á mánudaginn, bækurnar mínar fara upp í hillu og dvelja þar í rúmar 2 vikur. Það er því eins gott að danskan dugi án of margra gleðidrykkja svo ég komi einhverju í verk á sunnudaginn. En getið þið gefið okkur nokkrar góðar hugmyndir um hvernig þema við getum haft í íbúðinni?
Eins og kemur fram að ofan þá redduðu verkfallsenglarnir málunum þar sem verkfalli flugvirkja var frestað um 10 daga. Held samt að við höfum fengið smá hjálp frá Írisi frænku minni þar sem hún hefur gott lag á ýmsum handhægum englum (bílastæða- og verkfallsenglum). Hættan er samt ekki liðin hjá þar sem þeir þurfa að samþykkja einhverja tillögu en mér þykir það álitlegur kostur að pabbi minn strandi hjá mér :-)
Ég er búin að komast að því að það er helmingi auðveldara að hjóla með tónlist í eyrunum! Ég er líka búin að finna mína very own Létt 96.7 (Radio2 98.3) og nú þýt ég um göturnar í mínum eigin heimi ástarsöngva þar sem vindurinn og 18.gírinn eru annaðhvort með mér eða á móti :-) Þetta er reyndar semi-sniðugt þar sem ég heyri ekki jafn vel í flautandi bílum og öllum þeim fjölda sem tekur fram úr mér en þá er bara að halda sér vel hægra megin á hjólastígnum. Ég féll næstum því um koll um daginn þegar skooter þaut allt í einu framúr mér á ofsahraða!!
1.lota kortasamkeppninar er á enda komin og var hún æsispennandi allt fram á lokamínútu. Sá sem sigraði á það fyllilega skilið og fær að verðlaunum út að borða. Lokastaðan var 19-18 og ég tapaði!!! Það var samt alveg þess virði þar sem 19. stjörnukortið var það allra frumlegasta. 19 krakkar í 1.-3. bekk í Laugarnesskóla teiknuðu hver sína stjörnu og er nafnið þeirra ritað fyrir neðan stjörnuna :-) Til hamingju pabbi!
Fyrir helgina mæli ég með laginu Bring me to life með Evanescence sem er titillag myndarinnar Daredevil. Njótið helgarinnar. |
|
|